Innlent

Fallist á þriggja ára samning með endurskoðunarákvæði

Hreyfing er óvænt komin á kjaraviðræður og hefur verkalýðshreyfingin fallist á að semja til þriggja ára gegn því að hægt verði að taka samninginn upp eftir eitt ár.

Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari kallaði nú laust fyrir hádegi til fundar við sig í Karphúsinu forystumenn Samtaka atvinnulífsins sem og forystumenn Starfsgreinasambandsins og Flóabandalagsins til að fara yfir stöðuna. Þar til í gær voru fulltrúar verkalýðsforystunnar afar tregir til að ræða um annað en skammtímasamning til mest þrettán mánaða.

Sigurður Bessason, talsmaður Flóabandalagsins, sagði í morgun að fundurinn í gær hefði verið sá fundur sem hafi verið mýkri á milli aðila þannig að vonandi yrði framhald á því á fundinum í dag. Þetta hefði hins vegar gengið ofsalega hægt í viðræðunum

Í dag vonast menn hins vegar til þess að ná lendingu svo verkalýðshreyfingin treysti sér í þriggja ára samning sem fæli í sér endurskoðun eftir eitt ár ef kaupmáttur rýrnar við það að verðbólga fer úr böndum.

Sigurður segir að stóru atriðin séu eftir, það er launamálin sjálf. „Það eru margar brekkur fram undan en vonandi komast menn á endann," segir Sigurður Bessason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×