Innlent

Gert verði ráð fyrir óvígðum reit í öllum nýjum kirkjugörðum

MYND/Vilhelm
Dómsmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu sem fela meðal annars í sér að í nýjum kirkjugörðum verði skylt að gera ráð fyrir óvígðum reit og sérstökum reitum fyrir önnur trúarbrögð en kristin.

Frumvarpið er samið á grundvelli tillagna sem nefnd á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins vann en hún átti að gera úttekt á lögum um kikjugarða, greftrun og líkbrennslu og leggja fram tillögur til úrbóta. Hafa verið álitaefni hvort nægilega skýrar reglur gildi um útfararþjónustu.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að meginbreytingarnar sem lagðar séu til í frumvarpinu sé að í stað orðsins kirkjugarður í heiti laganna komi grafreitur þar sem kirkjugarðar eru einungis garðar þar sem kirkju er að finna. Þá er lagt til að flytja skuli lík í líkhús eftir að læknir er búinn að úrskurða mann látinn og að 21 dagur megi að hámarki líða frá andláti til útfarar. Einnig verði óheimilt að greftra lík eða brenna nema það sé lagt í kistu og hjúpað líkklæðum eða öðrum klæðnaði.

Þá er sem fyrr segir gert ráð fyrir að í nýjum kirkjugörðum verði skylt að gera ráð fyrir óvígðum reit og sérstökum reitum fyrir önnur trúarbrögð en kristin. Auk þess verði bætt við ákvæði um sérstakan minningarreit við kirkju vegna horfinna, látinna eða drukknaðra sem skuli njóta sömu helgi og legstaður.

Þá á samkvæmt frumvarpinu að verða heimilt að grafa kistu ungbarns í leiði með samþykki rétthafa þess. Er þetta ákvæði tilkomið annars vegar af tilfinningalegum sjónarmiðum og hins vegar verður það einnig til þess að spara rými í kirkjugarðinum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×