Innlent

Hörgull á málum á þingi?

MYND/Pjetur

Deilt var um það á Alþingi hversu framtakssöm ríkisstjórnin hefði verið á þessum vetri og ráðherrar hvattir til að spýta í lófana.

Það var Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, sem vakti athygli á því í óundirbúnum fyrirspurnum í dag að af þeim 150-160 þingmálum sem fylgt hefðu stefnuræðu forsætisáðherra í haust væru aðeins um 75 mál komin fram. Benti hún á að menntamálaráðherra hefði aðeins lagt fram 6 mál af 19, heilbrigðisráðherra 4 af 15 og viðskiptaráðherra 9 af 22. Spurði hún Geir H. Haarde hvað liði framlagninu mála á þingi og sagði ráðherra þurfa að spýta í lófana svo öll málin kæmu ekki á síðustu vikum þingsins í vor.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagðist fagna því að Valgerður saknaði góðra mála ríkisstjórnarinnar. Hún ætti hins vegar að vita að listinn sem fylgdi stefnuræðu forsætisráðherra væri ekki bindandi. Sagðist hann líta á fyrirspurn þingmannsins em áskorun um að gera betur og hann myndi taka hana upp á réttum vettvangi. Sagði hann enn fremur að ekki væri hörgull á málum að vinna úr á Alþingi enn sem komið væri og ríkisstjórnin hefði ýmislegt í pokahorninu sem enn ætti eftir að koma fram.

Valgerður Sverrisdóttir sagðist ekkert hafa rætt um að mál ríkisstjórnarinnar væru góð. Sagði hún að hörgull væri á málum á Alþingi, að minnsta kosti í nefndum sem hún starfaði. Hún gerði sér þó grein fyrir því að það hafi verið ákaflega gott ástand þegar ríkisstjórnin hafi tekið við völdum á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×