Innlent

Valgerður Sverrisdóttir segir óþef af nýja borgarmeirihlutanum

Valgerður Sverrisdóttir þingmaður Framsóknar og fyrrum ráðherra segir að óþefur sé að öllu málinu um borgarstjórnarskiptin nýlega. Þetta kemur fram á heimasíðu Valgerðar.

"Atburðirnir í Ráðhúsinu voru sögulegir. Þar stjórnaði Samfylkingin aðgerðum eins og sjálfstæðismenn hafa verið óragir við að halda til haga. Það er óþefur af þessu máli öllu. Ég vil samt segja að mér fannst mótmælin í Ráðhúsinu fara úr böndum", segir Valgerður á heimasíðu sinni.

"Að mínu mati var kjör varaformanns Orkuveitu Reykjavíkur mjög athyglisvert. Það embætti var Ásta Þorleifsdóttir kjörin til. Sú kona hélt tölu á Austurvelli við styttu Jóns Sigurðssonar fyrir nokkrum árum. Þá lét hún þau orð falla að hún vonaðist til þess að eldgos mundi brjótast út fyrir austan og hreinsa þann ófögnuð sem Kárahnjúkavirkjun væri úr gilinu. Svona fólk er náttúrlega alveg upplagt til að stjórna orkufyrirtækjum."

Valgerður gerir einnig að umtalsefni að Geir H. Haarde forsætisráðherra hafi lagt blessun sína yfir þetta allt saman og haldið sérstakan blaðamannafund til að tilkynna það. Og það sé nú ekki á hverjum degi sem hann grípur til slíkra verka.

Síðan segir Valgerður: "Einu sinni sagði forsætisráðherra sem þá var við völd: "svona gera menn ekki". Þessi orð ættu vel við nú. Vandinn er bara sá að sá sem lét þessi orð falla er talinn hafa skipulagt "byltinguna"".




Fleiri fréttir

Sjá meira


×