Innlent

Aftur óvissa um málefni Gagnaveitunnar

Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon

Ekki liggur enn ljóst fyrir hvort nýjum meirihluta í borgarstjórn fylgi nýjar áherslu í málefnum Gagnaveitu Reykjavíkur. Fráfarandi stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, Bryndís Hlöðversdóttir, ákvað í desember síðastliðnum að falla frá ákvörðun sem tekin var í borgarstjóratíð Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar um að leita eftir tilboðum í hlutafé Gagnaveitunnar en Orkuveitan fer með allt hlutafé í fyrirtækinu.

Stjórnin samþykkti tillögu Bryndísar en tveir greiddu atkvæði á móti. Það voru þeir Júlíus Vífill Ingvarsson og Kjartan Magnússon, borgarfulltrúar sjálfstæðismanna. Þeir létu í kjölfarið bóka að Gagnaveitan væri í óeðlilegri samkeppni við önnur fjarskiptafyrirtæki og að skynsamlegt væri að losa hana úr eigu hins opinbera.

Kjartan var svo í gær kjörinn stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur. Aðspurður hvort það tákni stefnubreytingu í málefnum Gagnaveitunnar svaraði Kjartan að það liggi enn ekki fyrir. Rekstur fyrirtækisins yrði skoðaður ofan í kjölinn og ákvörðun tekin í kjölfarið hvort rétt sé að leita tilboða í hlutaféð.

Kjartan sagðist ekki vera á annari skoðun en hann var í desember en tók hins vegar fram að vinna þyrfti málið í sameingu við samstarfsaðila sjálfstæðismanna í borgarstjórn. Þar að auki væri ekki víst að rétti tíminn væri að selja nú og vísaði til erfiðleika á fjármálamörkuðum.

Gagnaveita Reykjavíkur er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur sem sér um rekstur ljósleiðaranetsins. Gagnaveitan var stofnuð sem svið innan Orkuveitu Reykjavíkur í janúar 2005 en var breytt í hlutafélag tveim árum síðar. Viðskiptavinir Gagnaveitunnar eru bæði fyrirtæki og heimili á veitusvæðum Orkuveitunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×