Innlent

Guðni: Persónuárásir hrekkja og eyðileggja

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, hvetur framsóknarmenn til þess að slíðra sverðin og segir áfall að sjá á eftir ungu fólki eins og Birni Inga Hrafnssyni úr borgarstjórn.

Eins og fram hefur komið ákvað Björn Ingi Hrafnsson að láta af störfum sem borgarfulltrúi Framsóknarflokksins. Sagðist hann ekki getað starfað áfram vegna þeirra persónulegu árása sem hann hefði orðið fyrir undan farna daga.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, segir það stór tíðindi þegar ungur maður á uppleið í stjórnmálum ákveði að hverfa á braut.

„Hin pólitíska umræða hefur verið hörð og uppákomurnar vondar að undanförnu. Það hefur reynt mjög á Björn Inga og sömuleiðis þær árásir sem hann varð fyrir þegar hann varð að mynda nýjan meirihluta í borginni vegna ágreinings innan Sjálfstæðisflokksins vegna REI málsins ," segir Guðni og bendir á að þetta reyni bæði á persónu hans og ekki síður fjölskyldu.

"Persónuárásaumræðan verður að hverfa á nýjan leik út úr stjórnmálum. Hún hrekkir og eyðileggur pólitíkina. Ég vil ekki hafa svoleiðis umræðu í mínum flokki."

Guðni segist vonast til að menn í Framsóknarflokknum slíðri sverðin og segir að umræða sem þessi megi ekki vera á hinum pólitíska vettvangi, hvar sem menn standi í flokk.

Aðspurður hvort hann hafi hvatt Björn Inga til að endurskoða hug sinn segir Guðni að flokksforystan hafi staðið heils hugar á bak við hann í hans málum en Björn Ingi hafi tjá sér að ákvörðunin væri endaleg. „Ég þakkaði honum fyrir störfin og hann vill áfram vinna að uppgangi Framsóknarflokksins," segir Guðni.

Björn Ingi sé því ekki að yfirgefa Framsóknarflokkinn þótt hann hætti í borgarstjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×