Innlent

Passið ykkur á ísnum!

Ísinn getur verið ótraustur
Ísinn getur verið ótraustur

Í hlákunni síðustu daga er ís á vötnum og ám víða orðinn ótraustur og full ástæða til að vara fólk við því að fara út á hann. Erfitt getur verið að meta hvort ís sé nægjanlega traustur til að fara út á hann og mismunandi eftir vatni hvernig ísalög eru. En regla númer eitt er að snúa alltaf við ef einhverjir brestir heyrast.

Ef ís gefur sig og einstaklingur dettur ofan í vök skipta rétt viðbrögð öllu. Ef einstaklingur er einn á ferð fer best á því að nota eitthvað oddhvasst til að daga sig upp á ísinn. Ef slíkt er ekki fyrir hendi og frost er úti má reyna að koma sér eins langt upp og bíða átekta eftir því að föt frjósi föst við ísinn og draga sig þannig upp.

Ef fleiri eru með í för skiptir miklu máli að þeir sem eru uppi á ísnum fari ekki of nærri vökinni. Mikilvægt er að dreifa þunganum á ísnum eins mikið og hægt er, t.d. með því að leggjast niður. Sé þess kostur er gott að nota t.d. stiga eða viðarplötur sem hægt er að leggjast ofan á til að dreifa þyngdinni enn frekar. Síðan er um að gera að kasta einhverju til viðkomandi sem hann getur haldið í og draga hann þannig upp.

Mikilvægt er að koma þeim sem datt ofan í vökina í þurr föt eins fljótt og kostur er, halda á honum hita og gefa honum heitan vökva.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×