Innlent

Ólafur í byrjun desember: Megum ekki verða að örflokki

"Ég tel mjög mikilvægt að þessi borgarstjórnarflokkur og þeir sem að honum standa starfi vel saman og reyni að hafa breidd í málunum þannig að við stöndum undir þessu umboði og verðum ekki að einhverjum örflokki í lok kjörtímabilsins," sagði Ólafur F Magnússon verðandi borgarstjóri í Silfri Egils þann 2.desember síðastliðin.

Þá snér Ólafur aftur til starfa eftir veikindaleyfi en eins og flestir vita var þá kominn nýr meirihluti Framsóknarflokksins, Samfylkingar, Vinstri Grænna og Frjálslyndaflokksins.

Ólafur sagði í viðtalinu að honum litist vel á þennan nýja meirihluta sem væri eðlileg niðurstaða eftir að fyrri meirihluti Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sprakk.

Egill spurði Ólaf hvort sá meirihluti hafi verið myndaður í samráði við hann. "Það er rétt að ég átti visst frumkvæði og hafði samband við Dag og aðra oddvita þegar ég sá þessa stöðu koma upp."

Um samstarfið við Dag B Eggertsson sagði Ólafur: "Það er gott og ég hef trú á því að honum muni ganga vel. Hann er vænn maður og manna sættir og á eftir að gera það gott sem borgarstjóri."

Ólafur sagðist ekki bera illsku í garð nokkurs þó Sjálfstæðiflokkurinn hafi svikið hann og myndað meirihluta með Framsókn eftir kosningarnar 2006. "Mér finnst leiðinlegt að félagi minn Vilhjálmur Þ Vilhjálmsson hafi misstigið sig og að hans eigin menn hafi brugðist honum og sett hann nánast af."

Ólafur nefndi einnig að hin lýðræðislega niðurstaða eftir kosningarnar 2006 hefði verið samstarf Sjálfstæðisflokksins og Frjálslyndaflokksins. Á milli þeirra hefði hinsvegar komið upp trúnaðarbrestur og það hafi ekki verið vilji Sjálfstæðismanna að mynda meirihluta með sér þá.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×