Innlent

Fatafíaskó framsóknarmanna ekki komið til skattstjóra

Björn Ingi og Óskar Bergsson ásamt Alfreð Þorsteinssyni.
Björn Ingi og Óskar Bergsson ásamt Alfreð Þorsteinssyni.

Skattstjórinn í Reykjavík hefur ekki tekið fatamál Björns Inga Hrafnssonar og Óskars Bergssonar til afgreiðslu, samkvæmt upplýsingum frá Gesti Steinþórssyni skattstjóra.

Gestur segir að höfuðmáli skipti hversu umfangsmikið málið er. „Almenna reglan er hins vegar að gjafir eru skattskyldar nema að um tækifærisgjafir sé að ræða," segir Gestur. Gestur segir að skattstjórinn skoði allar ábendingar sem embættinu berist, þar á meðal geti verið ábendingar sem birtist í fjölmiðlum. Hins vegar sé ekki farið að skoða mál framsóknarmanna.

Eins og áður hefur komið fram kveðst fréttastofa Ríkisútvarpsins hafa undir höndum reikninga frá fataverslununum Herragarðinum og Hugo Boss að andvirði um ein milljón króna frá því í kosningabaráttunni 2006. Allir hafi þeir verið gefnir út á Fulltrúaráð Framsóknarflokksins í Reykjavík. Flestir þeirra séu merktir upphafsstöfum Björns Inga Hrafnssonar. Óskar Bergsson, annar maður á lista Framsóknarflokksins, sé einnig á meðal þeirra sem hafi kvittað fyrir hluta fatanna, ásamt Rúnari Haukssyni, kosningastjóra flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×