Innlent

Þak sett á lyfjakostnað allra sjúklinga

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Pétur Blöndal.
Pétur Blöndal. MYND/Teitur

Þak verður sett á lyfjakostnað allra sjúklinga á þessu ári og síðar einnig á aðra kostnaðarþætti sjúklinga í heilbrigðisþjónustu. Nefnd um greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðisþjónustu vinnur að því að einfalda það kerfi sem nú er við lýði.

Pétur Blöndal formaður nefndarinnar segir að með breytingunni sé verið að einfalda kerfið sem sé afar flókið. Einföldunin ein og sér spari bæði vinnu og kostnað.

Stefnt er að því að þak verði sett á lyfjakostnað 1. maí næstkomandi, en síðar á fleiri kostnaðarþætti sem sjúklingar bera eins og sérfræðiþjónustu, sjúkraflutninga, rannsóknir og röngtenmyndatökur.

Hingað til hefur kerfið verið háð sjúkdómum. Krabbameinssjúklingar borga sem dæmi lítið fyrir lyf sín í núverandi kerfi, nefnir Pétur sem dæmi, en gigtarsjúklingar mikið. Nýja kerfið verður óháð sjúkdómum.

Nú er verið að kanna hvað fólk er að borga mikið fyrir lyf en stuðst er við tölur frá síðasta ári um kostnað ríkisins af lyfjum og kostnað sjúklinga. Ekki er búið að ákveða hversu löng tímabilin verða, en um er að ræða fljótandi tímabil sem geta orðið allt að tólf mánuðir.

Pétur segir aðaltilganginn með breytingunni að takmarka útgjöld einstaklings í hverjum mánuði og einfalda kerfið. Geiðsluþátttaka ríkisins á að haldast óbreytt í heild en kerfið verði sanngjarnara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×