Innlent

Íslenskir aðalverktakar og svissneskt félag bjóða lægst í Óshlíðargöng

MYND/GVA

Íslenskir aðalverktakar og Marti Contractors frá Sviss áttu lægsta tilboðið í gerð Óshlíðarganga en tilboð vegna þeirra voru opnuð í dag hjá Vegagerðinni.

Tilboð félaganna hljóðar upp á tæpan þrjá og hálfan milljarð króna og nemur það tæpum 88 prósentum af áætluðum verkkostnaði.

Tilboðið var tæplega 200 milljónum króna lægra en tilboð norska félagsins Leonhard Nilsen & Sønner og Héraðsverks á Egilstöðum. Ístak átti svo tæplega fjögurra milljarða króna tilboð í verkið og tékkneska félagið Metrostav og Háfell buðu tæpa sex milljarða.

Fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni að hún hafi auglýst síðsumars eftir þátttakendum í forvali vegna jarðganganna sem eru milli Hnífsdals og Bolungarvíkur og verða um fimm kílómetra löng. Fimm verktakar og verktakahópar óskuðu eftir því að taka þátt í forvalinu og voru fjórir þeirra valdir.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×