Innlent

Reykvíkingar verða með þrjá borgarstjóra á launum

MYNDVilhelm
Reykvíkingar verða með þrjá borgarstjóra á launum þegar Ólafur F. Magnússon tekur við sem borgarstjóri á fimmtudag eins og gert er ráð fyrir. Með meirihlutaskiptunum fer Dagur B. Eggertsson á biðlaun og fyrir er Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson á biðlaunum.

Samkvæmt upplýsingum í Ráðhúsi Reykjavíkur taka laun borgarstjóra mið af launum forsætisráðherra en það er kjararáð sem ákveður þau. Þau eru nú ein milljón og eitthundrað og fimmtán þúsund.

Þá gilda þær reglur að borgarstjóri á rétt á sex mánaða biðlaunum ef hann hefur setið í eitt ár eða meira en þeir sem hafa setið skemur í borgarstjórastólnum fá hins vegar þriggja mánaða biðlaun. Út frá þessu átti Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson rétt á sex mánaða biðlaunum og Dagur B. Eggertsson á rétt á þriggja mánaða biðlaunum.

Hverfi borgarstjóri ekki af vettvangi borgarmálanna heldur taki stöðu sem almennur borgarfulltrúi fær hann borgarfulltrúalaunin og þá upphæð sem vantar upp á til að hann nái borgarstjóralaununum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×