Innlent

Fjögurra mánaða fangelsi fyrir fjölda brota

Karlmaður var í dag dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi vegna þriggja brota sem hann varð uppvís að á skömmum tíma. Maðurinn stal kveikjuláslyklum, keyrði ökuréttindalaus og var handtekinn með hníf í miðbænum.

Í maí í fyrra stal maðurinn tveimur kveikjuláslyklum úr fatahengi í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi í Reykjavík. Kvöldið eftir mætti hann svo aftur á bílastæðið við Gerðuberg og stal bíl sem annar kveikjuláslykillinn gekk að. Keyrði hann um götur Reykjavíkur en var síðar stöðvaður í Fífuseli í Breiðholti af lögreglu. Maðurinn var ökuréttindalaus.

Maðurinn lenti síðan aftur í vandræðum þegar hann var handtekinn í Lækjargötu um hálf sex að morgni. Þá hafði hann otaði hnífi að gangandi vegfaranda en hnífurinn var fjölnota vasahnífur sem í senn er hnífur, töng og skrúfjárn. Hélt lögmaður mannsins því fram að hnífur sem sé einungis með 7cm langt hnífsblað sé ekki ölöglegur.

Dómurinn féllst hinsvegar ekki á þau rök þar sem maðurinn virtist að tilefnislausu hafa otað hnífnum að nefsbroddi vegfarandans.

Var maðurinn því eins og fyrr segir dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×