Innlent

Ekki hægt að hleypa öllum að auðlindinni í sjónum

Heimir Már Pétursson skrifar

Varaformaður sjávarútvegsnefndar Alþingis segir að álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um fiskveiðistjórnunarkerfið sé ákveðið áfall fyrir Íslendinga. Formaður nefndarinnar segir ekki hægt að hleypa öllum að auðlindinni í sjónum vegna þess að þá yrðu veiðarnar stjórnlausar.

Sjávarútvegsnefnd Alþingis kom saman til fundar í morgun þar sem aðalumræðuefnið var álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um að íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið bryti í bága við mannréttindi.

Karl V. Matthíasson, varaformur sjávarútvegsnefndar, segir aðspurður hvort álitið sé áfall fyrir íslenska fiskveiðikerfið að þetta sé úrskuður um að það þurfi að laga kerfið. Þetta sé mannréttindanefnd og þettta sé því á vissan hátt áfall.

Formaður nefndarinnar, Arnbjörg Sveinsdóttir, tekur ekki jafn djúpt í árinni og varaformaðurinn. „Mér finnst ekkert hafa komið fram sem segir að þetta sé áfall en auðvitað ber okkur eins og alltaf að skoða álit sem koma með þessum hætti," segir Arnbjörg.

Karl V. Matthíasson vill að kerfinu verði breytt í þá átt að smábátasjómenn eigi greiðari aðgang að fiskimiðunum. „Það hefur sýnt sig að smábátaútgerð hefur dalað og byggðirnar hafa beðið hnekki," segir Karl.

Arnbjörg segir ekki hægt að hafa óheftan aðgang að miðunum. Þetta snúist um það að hafa sem hagkvæmasta nýtingu á auðlindinni „og auðvitað byggist þetta upp á því að þeir sem hafa til þess þekkingu og getu eru að nýta hana og skila sem mestum arði af því inn í þjóðarbúið," segir Arnbjörg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×