Innlent

Skilorðsbundið fangelsi og sekt fyrir bókhaldsbrot

MYND/Ingólfur
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu 16,5 milljóna króna fyrir ýmis bókhaldsbrot í tengslum við starf hans sem framkvæmdastjóri og stjórnarformaður einkahlutafélags.

Nánar tiltekið var um að ræða brot á lögum um virðisaukaskatt, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um tekju- og eignaskatt, lögum um tekjustofna sveitarfélaga og lögum um bókhald.

Manninum var gefið að sök að hafa vantalið virðisaukaskatt og skattskylda veltu í virðisaukaskattsskýrslum til yfirvalda á árinu 2004 og tvo mánuði árið 2005. Samtals námu þau vanskil tæpum 4,2 milljónum króna.

Þá var maðurinn einnig ákærður fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins, samtals að fjárhæð rúmlega 2,2 milljónir króna.

Loks var hann ákærður fyrir að hafa ekki talið fram í skattframtali sínu vegna ársins 2004 fjármuni sem hann hafði fengið greidda úr einkahlutafélaginu. Með þessu vantaldi hann tekjuskatts- og útsvarsstofn sinn um rúmar 6,7 milljónir króna.

Maðurinn játaði brot sín skýlaust en hann hafði áður verið dæmdur fyrir skjalafals í Danmörku. Að teknu tilliti til þessa þótti fjögurra mánaða dómur, sem skilorðsbundinn er til tveggja ára, hæfileg refsing. Greiði maðurinn ekki sektina innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þarf hann að sæta sex mánaða fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×