Innlent

Telur rökstuðning iðnaðarráðherra faglegan

Ingibjörg sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra segir rökstuðning iðnaðarráðherra fyrir ráðningu ferðamálastjóra og orkumálastjóra faglegan. Hún hefur hins vegar ekki lesið rökstuðning Árna Matthiesen, setts dómsmálaráðherra, fyrir ráðningu Þorsteins Davíðssonar en segir ráðherra almennt þurfa að gera sér grein fyrir því að þeir hafi ekki frjálsar hendur við slíkar ráðningar.

Ráðning iðnaðarráðherra í stöður ferðamálastjóra og orkumálastjóra voru gagnrýndar af öðrum umsækjendum. Ferðamálafræðingar hafa gagnrýnt að líffræðingur hafi verið ráðinn í stöðu ferðamálastjóra og Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir, sem sótti um stöðu orkumálastjóra, hefur sagt að menntun sín hafi ekki verið metin af verðleikum þegar Guðni A. Jóhannesson hafi verið ráðinn í starfið.

Iðnaðarráðherra hefur rökstutt ráðningarnar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, segir rökstuðning Össurar faglegan. „Það getur auðvitað verið þunn lína stundum á milli einstaklinga þegar verið er að leggja mat á þá vegna þess að þeir eru mjög hæfir. Þá getur auðvitað orðið svolítið matskennt á endanum hvað það er sem ræður úrslitum en það er greinilegt að það var úr vöndu að velja hjá iðnaðaráðherra," segir Ingibjörg Sólrún.

Ráðherrar hafi ekki alveg frjálsar hendur

Ráðning setts dómsmálaráðherra, Árna Matthiesen, í stöðu héraðsdómara hefur einnig verið gagnrýnd. Árni réði Þorstein Davíðsson til starfans þrátt fyrir að fagnefnd hafi úrskurðað að hann væri ekki hæfasti umsækjandinn.

Ingibjörg hefur ekki lesið rökstuðning Árna fyrir ráðningunni en sagði að almennt sé mikilvægt að ráðherrar geri sér grein fyrir að þeir hafi ekki alveg frjálsar hendur um það hvernig þeir standi fyrir ráðningum „heldur þarf að leggja hæfni til grundvallar og það þarf að vera skýr rökstuðningur og það er auðvitað eitt af því sem ráðherrar verða að gera. Þeir verða að rökstyðja sínar ráðningar og það sýnist mér nú að menn séu að reyna að gera," segir utanríkisráðherra




Fleiri fréttir

Sjá meira


×