Innlent

Samið við bandarískt fyrirtæki um lagningu DANICE-strengsins

Eignarhaldsfélagið Farice hefur samið við bandaríska fyrirtækið Tyco Telecommunications um að hanna, framleiða og leggja hinn svokallaða DANICE-ljósleiðarasæstreng frá Íslandi til Danmerkur.

Fram kemur í tilkynningu frá Farice að verkinu eigi að vera lokið í lok þessa árs en með nýja sæstrengnum á að auka sambandsöryggi við útlönd verulega. Þá á stengurinn að flytja fjarskiptaumferð netþjónabúa sem áformað er að reisa hér á landi. Sæstrengurinn, sem er 2250 kílómetra langur, verður lagður frá Landeyjum til Blåbjerg á vesturströnd Danmerkur.

Haft er eftir framkvæmdastjóra Farice, Guðmundi Gunnarssyni, að áætlanir séu um að reka báða sæstrengina, FARICE og DANICE, í eins konar hringkerfi. Auk þeirra tveggja tengir CANTAT-3 sæstrengurinn Ísland við útlönd en hann er nokkuð kominn til ára sinna.

Í DANICE-sæstrengnum verða fjögur ljósleiðapör, sem hvert um sig getur flutt 1280 gígabit á sekúndu og því er mesta afkastageta sæstrengsins rúmlega 5000 gígabit á sekúndu. Til samanburðar má nefna að afkastageta FARICE-1 sæstrengsins er 720 gígabit á sekúndu.

Fram kemur í tilkynningunni að Tyco Telecommunications sé leiðandi fyrirtæki á sviði ljósleiðarasæstrengja og hefur lagt yfir 80 sæstrengskerfi víða um heim á síðustu 50 árum. Höfuðstöðvar og verksmiðjur Tyco eru í New Jersey og New Hampshire í Bandaríkjunum.

Farice ehf. fer með 80 prósent hlut Íslendinga í Farice hf., sem á og rekur FARICE-1 sæstrenginn, en Færeyingar eiga 20 prósent í þeim sæstreng. Hluthafar í Farice ehf. eru íslenska ríkið, Hitaveita Suðurnesja, Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur, Skipti og Og fjarskipti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×