Innlent

Nýr samningur um menningarmál á Austurlandi

Menntamálaráðherra, iðnaðarráðherra og formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi undirrituðu í dag þriggja ára samning um samstarf ríkis og allra níu sveitarfélaganna á Austurlandi um menningarmál og menningartengda ferðaþjónustu.

Fram kemur í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu að þetta sé þriðji samningurinn sinnar tegundar en hann felur í sér að framlag ríkisins til sveitarfélaganna hækkar úr 38 milljónum í 48 milljónir króna. Aukin áhersla er lögð á menningartengda ferðaþjónustu í þessum samningi. Menningarráð Austurlands fer með daglega framkvæmd samningsins.

Við sama tækifæri undirrituðu öll sveitarfélög á Austurlandi nýjan samstarfssamning um menningarmál, einnig til þriggja ára, en framlög þeirra vegna menningarsamstarfsins aukast í samræmi við hækkun ríkisins.

Bent er á í tilkynningunni að sveitarfélög á Austurlandi juku heildarframlög sín til menningarmála á samningstíma síðasta samnings, frá 2005-2007, um tæp 40 prósent og nema þau nú um 250 milljónum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×