Innlent

Rætt um aukna fjárþörf Hafró vegna loðnuleitar

Ríkisstjórnin fjallaði í gær um aukna fjárþörf Hafrannsóknastofnunar vegna viðleitni hennar til að átta sig á loðnustofninum.

Loðnan hefur verið að breyta göngumynstri sínu og er nú svo komið að bæði vantar mælingu á veiðistofninum á þessari vertíð og mælingar á ungloðnu því sú mæling misfórst síðastliðið haust. Þær mælingar eiga að gefa vísbendingu um næstu vertíð.

Upphafskvóti á þessari vertíð er aðeins 120 þúsund tonn og því er brýnt að mæla stofninn strax í þeirri von að hægt verði að auka kvótann verulega. Miklir hagsmunir eru í húfi því útflutningsverðmæti af hverju tonni nemur um 20 þúsundum, ef loðnan er brædd, en um 40 þúsundum ef hún er fryst til manneldis.

Nokkur skip, sem hófu leit eftir áramótin, hafa þegar fengið afla og eru byrjuð að landa til bræðslu þar sem megnið af loðnunni hefur verið of smátt til frystingar.

Hátt í 370 þúsund tonn veiddust á vetrarvertíðinni í fyrra en engin haustvertíð var það árið. Mestur hefur aflinn orðið tólf hundruð þúsunnd tonn, en það var fyrir 11 árum. Lengstaf hefur aflinn verið um 800 þúsund tonn síðan en hefur hríðfallið síðustu misserin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×