Innlent

Mál Gunnars Wathne tekið fyrir í Bandaríkjunum

MYND/Pjetur

Gunnar Stefán Wathne, Íslendingur sem grunaður er um peningaþvætti í Bandaríkjunum, kom fyrir dóm í Newark í New Jersey á mánudag. Þar var honum birt ákæra í málinu.

Gunnar var handtekinn á flugvelli í Nýju-Delí í lok september en bandarísk stjórnvöld hafa leitað hans í fjögur ár. Hann er grunaður um að hafa þvættað peninga fyrir Bandaríkjamanninn William Pikard sem sakfelldur var árið 2003 fyrir framleiðslu á LSD og dæmdur í lífstíðarfangelsi. Peningaþvættið á að hafa farið fram á árunum 1996-2000.

Bandarísk stjórnvöld fóru fram á framsal Gunnars frá Indlandi en þar hefur hann verið í farbanni eftir að hann var handtekinn. Gunnar féllst að lokum á að halda til Bandaríkjanna.

Fram kemur á bandaríska fréttavefnum Marin Independent Journal að Gunnar hafi verið látinn laus gegn fimm milljóna dollara tryggingu en vitnaleiðslur í málinu eiga að hefjast á morgun. Hann á yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi og allt að 30 milljóna króna sekt verði hann sakfelldur í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×