Innlent

Hækkun fasteignaskatta slæm fyrir kjaraviðræður

Hækkun fasteignaskatta nú um áramót er slæmt innlegg í kjaraviðræður og áformar verkalýðsforystan að krefjast þess að sveitarfélögin falli frá skattahækkuninni. Hugmyndir sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar kynntu í gær um framlag ríkisvaldsins virðast ekki gefa tilefni til bjartsýni um framhald viðræðna.

Helstu verkalýðsforingjar landsins, formenn landssamtaka og stærstu stéttarfélaga innan Alþýðusambands Íslands, hittust í höfuðstöðvum sambandsins fyrir klukkustund til að bera saman bækur sínar fyrir fund með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins eftir hádegi.

Helsta verkefni fundarins var þó að fara yfir hugmyndir sem embættismenn ríkisstjórnarinnar kynntu forystu ASÍ í gær um hvernig ríkisvaldið sæi fyrir sér aðkomu þess að kjaraviðræðum.

Þær hugmyndir virðast ekki gefa verkalýðsforingjum tilefni til bjartsýni og segir Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, varaforseti ASÍ, að mikil óvissa sé um framhaldið í kjölfar þess fundar.

Hún segir verkalýðshreyfinguna mjög ósátta við hækkun fasteignaskatta sveitarfélaga. Sú hækkun komi öfugt inn í umræðuna og segir hún mjög líklegt að þess verði krafist að sveitarfélögin taki hækkunina til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×