Innlent

Farið yfir það innan borgarkerfisins hvaða þýðingu tilmæli hafa

Verið er að fara yfir það innan borgarkerfisins hvaða þýðingu tilmæli Húsafriðunarnefndar til menntamálaráðherra um friðun Laugavegar 4 og 6 hefur fyrir borgina. Að sögn Guðmundar Steingrímssonar, aðstoðarmanns borgarstjóra, vill borgarstjóri bíða niðurstöðu þeirrar yfirferðar áður en hann tjáir sig frekar um málið.

Húsafriðunarnefnd samþykkti í gær að vinna tillögu þess efnis að beina þeim tilmælum til Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra að friða húsin, en deilur hafa verið um það hvað skuli gera við þau. Húsafriðunarnefnd hafði hingað til ekki talið að friða ætti húsin en eftir fund nefndarinnar í gær segir hún að fyrirhugaðar nýbyggingar á reitunum rýri varðveislugildi Laugavegar 2 og því raskist götumynd.

Eigendur Kaupangs, eignarhaldsfélagsins sem á húsin að Laugarvegi 4-6 og byggingarrétt á lóðinni, hafa sagt að ef ákvörðun verði tekin um að friða húsin muni það leiða til þess að fjárfesting og kostnaður sem nemi hundruðum milljóna króna ónýtist og bótaskylda skapist, sem lendi á skattgreiðendum.

Anna Sigurlaug Pálsdóttir, dóttir Páls Samúelssonar, fyrrverandi eiganda Toyota-umboðsins, hefur boðist til að endurbyggja húsin tvö og mun hún funda með borgarstjóra klukkan eitt og kynna sínar hugmyndir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×