Innlent

45 daga fangelsi fyrir húsbrot og árás á konu

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í 45 daga fangelsi, sem skilorðsbundið er til tveggja ára, fyrir að hafa ruðst inn í hús óboðinn og ráðist á konu sem þar var gestkomandi.

Atvikið átti sér stað í Sandgerði í maí árið 2006. Maðurinn fór óboðinn inn í húsið og réðst þar að konu sem hann þekkti. Kastaði hann henni í gengum baðherbergisdyr svo hún lenti á salernisskálinni þannig að hún hlaut mar og ýmis eymsli í höndum og baki.

Maðurinn neitaði alfarið sök en út frá framburði kærenda og annarra vitna var hann sakfelldur fyrir bæði húsbrot og líkamsárás. Tekið var tillit til þess við ákvörðun refsingar að konan hefði viðurkennt að hafa löðrungað árásarmanninn þegar hann hafði ráðist inn á heimilið og farið að kalla hana illum nöfnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×