Búið er a að finna íslenska piltinn Ívar Jörgensson sem saknað hefur verið í Danmörku undanfarna viku og er hann látinn. Frá þessu er greint á vef Extra Bladet og þar vitnað í lögregluna á Norður-Jótlandi.
Ívar, sem var 18 ára, bjó í Havndal á Jótlandi með fjölskyldu sinni og hafði hans verið saknað frá sunnudeginum 3. febrúar en það kvöld hugðist hann sækja vinkonu sína en kom aldrei til hennar. Bíll hans fannst bensínlaus á mánudagsmorgninum á milli bæjanna Valsgaard og Hadsund og var gerð ítarleg leit að honum á stóru svæði þar í kring. Nokkrar vísbendingar bárust í málinu síðustu daga og fannst hann í um kílómetrafjarlægð frá bílnum að sögn lögreglu.
Extra Bladet segir að líkið hafi fundist norðvestur af bænum Hadsund á svæði þar sem mikið er af minni vötnum og síkjum. Lögregla segir ólíklegt að honum hafi verið ráðinn bani en segir þó of snemmt að útiloka það alveg.