Innlent

Lögmaður höfuðpaursins: „Maður hefur ekki séð þetta áður“

Anton Kristinn Þórarinsson var dæmdur í tveggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
Anton Kristinn Þórarinsson var dæmdur í tveggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

„Ég er ekki sammála dómnum enda voru engin bein sönnunargögn sem tengdu hann þessu máli. Þetta voru meira og minna spádómar um eitthvað sem menn hefðu getað verið að tala um,“ segir Grímur Sigurðarson, lögmaður Antons Kristins Þórarinssonar, sem í gær var dæmdur í tveggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir smygl á um 700 grömmum af kókaíni.

„Það má segja að þetta séu getgátur lögreglunnar sem ómögulegt hafi verið að sanna en dómurinn byggir á óbeinum sönnunargögnum sem lágu fyrir í málinu," segir Grímur en Anton mun áfrýja dómnum til Hæstaréttar.

Anton, sem talinn er höfuðpaurinn í málinu, á nokkra sögu í fíkniefnaheiminum. Hann var m.a. dæmdur í þriggja ára fangelsi árið 2000. Sími Antons var hleraður í um eitt ár áður en hann var handtekinn.

„Það er í rauninni bara ein hlerun þar sem eitthvað kemur fram sem lögreglan telur tengjast þessu. Þar eru þeir hleraðir inni í bíl og eru að tala um að breyta einhverjum flugmiðum. Anton kom með sínar skýringar á því en dómurinn telur að þar hafi þeir verið að tala um flugmiða fyrir burðardýrin," segir Grímur sem finnst dómurinn byggja niðurstöðu sína á mjög litlum sönnunargögnum.

„Maður hefur ekki séð þetta áður, yfirleitt eru einhver vitni sem benda á viðkomandi en það er ekki í þessu tilfelli. Dómurinn er líka þungur, tvö ár óskilorðsbundið."

Grímur bendir á að þróunin í kókaínmálum sé sú að dómar hafi farið lækkandi undanfarið og segir að fyrir sama magn hafi menn verið að sjá 12 upp í 16 mánuði. „En tuttugu og fjórir mánuðir er mjög mikið."Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.