Innlent

Jákvæður tónn um að ganga hraðar í verkefnið

MYND/GVA

„Það má segja að það hafi verið jákvæður tónn um að ganga hraðar í verkefnið og það var vilji í mönnum til þess að setjast yfir þetta af meiri alvöru," segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar - stéttarfélags eftir fund Starfsgreinasambandsins og Flóabandalagsins með Samtökum atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara í dag.

Þetta var þriðji samningafundur félaganna um nýjan kjarasamning og hefur fjórði fundurinn verið boðaður á mánudaginn kemur klukkan eitt. Sigurður segir ljóst að ágreiningur sé um samningslengd, en Samtök atvinnulífsins hafa talað fyrir fjögurra ára samningi en verkalýðsfélögin fyrir árssamningi. „Menn eru enn að skoða möguleikana í stöðunni og það er verkefnið að vinna sig út úr þessu," segir Sigurður.

Viðræðunefnd Starfsgreinasambandsins ákvað í gær að tilnefna fulltrúa í aðgerðanefnd sem á að gera tillögur um aðgerðir ef nauðsyn krefur. Þar á er átt við hugsanlegar verkfallsaðgerðir. Sigurður segir Flóabandalagið öðruvísi sett en menn íhugi ekki verkfall í augnablikinu. „Ef viðræðurnar fara hins vegar að dragast á langinn þá er væntanlega komin upp önnur staða. Menn geta ekki dundað sér í samningsgerð fram eftir vetri," segir Sigurður. Miklu máli skipti að samningsgerðin dragist ekki of lengi og niðurstaðan sé ásættanleg fyrir félaga í verkaðlýðshreyfingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×