Innlent

Magnús Þór: „Svartur dagur í sögu bæjarins“

Karen Jónsdóttir bæjarfulltrúi Frjálslyndra hefur ákveðið að ganga til liðs við Sjálfstæðiflokkinn á Akranesi.
Karen Jónsdóttir bæjarfulltrúi Frjálslyndra hefur ákveðið að ganga til liðs við Sjálfstæðiflokkinn á Akranesi.

Karen Jónsdóttir, fulltrúi F-lista á Akranesi, hefur ákveðið að ganga í Sjálfstæðisflokkinn á Akranesi. Þar með er flokkurinn kominn með hreinan meirihluta í bæjarstjórn og Magnús Þór Hafsteinsson, varamaður Karenar er því kominn út í kuldann. Ástæða sinnaskipta Karenar er sú harða andstaða sem Magnús Þór hefur sýnt hugmyndinni um að Akranesbær taki við flóttafólki frá Palestínu. Magnús Þór segir þetta mikinn afleik hjá sjálfstæðismönnum og að dapurlegt sé að sjá Karen bregðast trausti kjósenda sinna.

Magnús segir málið ekki koma sér mikið á óvart. „Þetta er mjög vanhugsað hjá sjálfstæðismönnum og á eftir að koma þeim í koll," segir hann. „Það er einnig dapurlegt að Karen skuli með þessum hætti bregðast trausti kjósenda okkar auk þess sem hún gengur gegn vilja flokksins sem hún var kosin til að vinna fyrir." Magnús segir að flóttamannamálið hafi verið rætt ítarlega innan F-listans og að yfirgnæfandi meirihluti hafi verið fyrir því að leggjast gegn hugmyndinni.

„Það er augljóst að það á að taka á móti 60 flóttamönnum á Akranes. Það jafngildir því að um 1100 manns kæmu til Reykjavíkur. Meirihlutinn í bæjarstjórninni er greinilega reiðubúinn til að taka við valdboði frá ríkisstjórninni og það er sorglegt að þeir hafi ekki meira sjálfstraust en þetta," segir Magnús Þór og bætir við að þetta sé svartur dagur í sögu Akraness.

Nú er staðan sú að Magnús er varamaður fyrir Karen og því hefur skapast „umsátursástand" um stól bæjarfulltrúans eins og Magnús orðar það. „Það er sama ástand á Akranesi eins og í Reykjavík," segir hann og bætir við að nú fari hans menn í það að byggja upp flokkinn í bænum. „Við ætlum ekki að bregðast fólkinu sem kaus okkur."

 


Tengdar fréttir

Vilja að Reykjavíkurborg taki við flóttamönnum í stað Akraness

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri - grænna og Framsóknarflokksins í velferðarráði Reykjavíkurborgar hyggjast leggja fram þá tillögu í ráðinu á morgun að borgin taki á móti 30 flóttamönnum frá Palestínu sem væntanlegir eru til landsins.

„Ég er enginn kynþáttahatari“

„Ég er enginn kynþáttahatari og ég er ekki vondur maður. Ég er einungis að sinna mínum skyldum og forgangsraða fyrir fólkið sem kaus mig,“ segir Magnús Þór Hafsteinsson varaformaður Frjálslyndaflokksins og formaður félagsmálaráðs Akranes.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×