Enski boltinn

Grétar Rafn ofar en Terry og Lescott

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Grétar Rafn í leik með Bolton.
Grétar Rafn í leik með Bolton. Nordic Photos / Getty Images
Grétar Rafn Steinsson er á 21. sæti lista Actim sem heldur utan um tölfræði allra leikmanna í ensku úrvalsdeildinni og hoppar upp um tólf sæti á milli lista.

Grétar Rafn er næstefsti leikmaður Bolton á listanum en Gary Cahill er í þrettánda sæti.

Hann skýtur mörgum af þekktari varnarköppum deildarinnar ref fyrir rass, svo sem John Terry hjá Chelsea og Joleon Lescott, leikmanni Everton sem kom næstir á listanum.

Enn neðar á listanum má finna varnarmenn menn eins og Gael Clichy, Nemanja Vidic og Rio Ferdinand.

Nicolas Anelka, leikmaður Chelsea, er í efsta sæti listans með 407 stig og næstur kemur Gabriel Agbonlahor, Aston Villa, með 361 stig. Frank Lampard er svo með 351 stig en þetta eru þeir einu sem eru með meira en 300 stig. Grétar Rafn er með 234 stig.

Actim heldur einnig utan um tölfræðina í ensku B-deildinni og þar komst Ívar Ingimarsson, leikmaður Reading, einnig á lista efstu 100 manna.

Ívar er í 47. sæti listans með 247 stig en liðsfélagi hans, Kevin Doyle, er þar efstur á lista með 521 stig.

Síðasti listinn fyrir B-deildina var gefinn út þann 19. desember og í þeirri lotu fékk Jóhannes Karl Guðjónsson, leikmaður Burnley, flest stig allra leikmanna fyrir einn leik eða 48 talsins. Stigin fékk hann fyrir leik Burnley gegn Southampton en hann skoraði tvö mörk í leiknum. Hann er í 186. sæti listans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×