Innlent

Þorsteinn er frumheimildin

Karl Th. Birgisson, ritstjóri Herðubreiðar.
Karl Th. Birgisson, ritstjóri Herðubreiðar.

Karl Th. Birgisson, ritstjóri tímaritsins Herðubreiðar, segir að frumheimildin á bak við símtals söguna sem sögð er í palladómi um Styrmi Gunnarsson ritstjóra Morgunblaðsins í síðasta tölublaði sé Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins. Þetta kom fram í þættinum Ísland í dag nú fyrir stundu.

Í palladómnum er því lýst hvernig Þorsteinn á að hafa gengið inn á skrifstofu Styrmis á Morgunblaðinu og heyrt hann tala í síma við Kristinn Björnsson, eiginmann Sólveigar Pétursdóttur þáverandi dómsmálaráðherra um yfirvofandi aðgerðir lögreglu gegn Baugi.

Styrmir og Þorsteinn hafa báðir neitað sögunni en í þættinum staðhæfði Karl að Þorsteinn hefði sagt fleiri en einum þessa sögu og þaðan væri hún komin þótt hún sé ekki höfð eftir Þorsteini sjálfum.

Karl neitaði að gefa upp í þættinum hver höfundur greinarinnar sé en hann sagðist standa við hana í einu og öllu og bera á henni ábyrgð sem ritstjóri blaðsins. Vefritið Eyjan.is staðhæfir hins vegar að höfundurinn sé enginn annar en Karl sjálfur og segist hafa fyrir því heimildir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×