Innlent

Allar líkur á að loðnukvótinn verði aukinn í dag

Allar líkur eru á að loðnukvótinn verði aukinn á hverri stundu eftir að nýjar loðnutorfur fundust á tveimur stöðum við Suðausturland um helgina.

Það var áhöfnin á Árna Friðrikssyni sem fann loðnuna og að sögn Sveins Sveinbjörnssonar, fiskifræðings og leiðangursstjóra, var þessi loðna ótengd þeirri loðnu sem áður hefur mælst og nú er verið að veiða úr.

Magnið var nú mælt á báðum stöðum en Sveinn vildilekki gefa upp megn nema hvað hann sagði að dálítið hafi mælst á báðum stöðunum. Þetta er því hrein viðbót við það sem áður er vitað um og ætti að gefa tilefni til þess að auka kvótann.

Sveinn sendi öll gögn mælinganna til Hafrannsóknarstofnunar laust fyrir klukkan ellefu í morgun og búast má við að hún taki afstöðu til þeirar hið fyrsta og sendi sjávarútvegsráðherra tillögur sínar í ljósi nýrra upplýsinga.

Útvegsmenn fylgjast grannt með framvindu mála því mikilvægt er að fá úr þessu skorið sem fyrst til að geta skipulagt veiðarnar á sem hagkvæmastan hátt þá daga sem eftir eru af vertíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×