Innlent

Rætt um Afganistan og Kosovo á fundi NATO

MYND/Pjetur

Stækkun Atlantshafsbandalagsins til austurs, aðgerðir alþjóðasamfélagsins í Afganistan og staðan í Kosovo var meðal þess sem utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins ræddu á fundi í Brussel í dag.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sat fundinn fyrir Íslands hönd sem haldinn var í aðdraganda leiðtogafundar bandalagsins sem fram fer í Búkarest í næsta mánuði.

Fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu að utanríkisráðherra hafi lýst jákvæðri afstöðu íslenskra stjórnvalda til þess að veita Króatíu, Albaníu og Makedóníu aðild að bandalaginu, náist um það samstaða meðal aðildarríkja NATO. Ráðherra ítrekaði mikilvægi náinna samskipta við Georgíu og Úkraínu og lýsti yfir stuðningi við beiðni Svartfjallalands og Bosníu-Hersegovínu um nánari tengsl við NATO. Ráðherra hvatti til þess að bæði NATO og ESB haldi góðum tengslum við Serbíu.

Vill betra samráð alþjóðastofnana í Afganistan

Í umræðum um Afganistan ítrekaði utanríkisráðherra þau órofatengsl sem eru á milli friðargæslu, góðrar stjórnsýslu og efnahagsuppbyggingar og lagði þunga áherslu á mikilvægi heimamanna í öllu uppbyggingarstarfi. Ráðherra kallaði eftir bættu samráði alþjóðastofnana í Afganistan undir forystu Sameinuðu þjóðanna.

Greindi ráðherra frá því að í utanríkisráðuneytinu er nú unnið að gerð þriggja ára áætlunar um áframhaldandi stuðning við friðar- og uppbyggingarstarf í Afganistan þar sem megináherslan er á verkefni á sviði mannréttinda, þróunar og friðsamlegrar lausnar deilumála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×