Innlent

Íslendingar gætu hagnast á olíu við Austur-Grænland

Olíu- og gaslindir við Austur-Grænland eru taldar tvöfalt meiri en á Drekasvæðinu. Bæjarstjóri Ísafjarðar segir þarna mikil tækifæri sem Vestfirðingar ætli að nýta.

Sérfræðingar norska olíufélagsins Sagex birtu fyrir tveimur mánuðum mat á stærð olíu- og gaslinda í norðanverðu Atlantshafi og töldu að á Drekasvæðinu gætu leynst tuttugu milljarðar tunna af olíu og gasi, álíka mikið og í Noregshafi. Þeir telja hins vegar að tvöfalt meira sé við Austur-Grænland. Á báðum þessum svæðum er að fara í gang leit og hugsanleg vinnsla sem gæti kallað á vaxandi starfsemi í landi á næstu árum og áratugum.

Vegna olíuleitar á Drekasvæðinu eru sveitarfélögin Vopnafjörður og Langanesbyggð byrjuð að undirbúa uppbyggingu þjónustumiðstöðvar á Norðausturlandi. Vestfirðingar eru einnig farnir að huga að því hvaða tækifæri olíuleit við Austur-Grænland norður af Íslandi gæti gefið byggðarlögum Vestfjarða.

Þannig var bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Halldór Halldórsson, í föruneyti utanríkisráðherra í opinberri heimsókn til Grænlands síðastliðið sumar, til að kynna sér málin. Halldór segir Vestfirðinga sjá þarna mikil tækifæri, sem þeir ætli að nýta, og bendir á að hafnir við austurströnd Grænlands séu lokaðar vegna hafíss stóran hluta ársins. Olíuleit þar kalli á mikla þjónustu sem hentugt verði að veita frá Íslandi. Hugsanleg olíuhreinsistöð á Vestfjörðum segir Halldór auka enn á möguleika fjórðungsins gagnvart olíulindum við Austur-Grænland.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×