Enski boltinn

Tevez að semja við United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlos Tevez í leik með Manchester United.
Carlos Tevez í leik með Manchester United. Nordic Photos / Getty Images

Carlos Tevez á von á að hann muni skrifa fljótlega undir langtímasamning við Manchester United.

Tveggja ára lánssamningur Tevez við United rennur út í lok tímabilsins en Tevez segist vera ánægður hjá félaginu og vill vera áfram.

„Við höfum átt í viðræðum sem eru langt komnar. Ég held að það verði gengið frá þessu fljótlega," sagði Tevez í samtali við argentínska fjölmiðla.

Tevez hefur ekki verið reglulega í byrjunarliði United en hann segir að það hafi ekki haft áhrif á sig.

„Það er hluti af mínu lífi. Ég hef alltaf þurft að berjast fyrir mínu en ég mér líður alltaf best þegar liðið vinnur titla."

„Eina félagið sem ég hef verið hjá sem hefur ekki unnið titla er West Ham. En miðað við hvernig við björguðum okkur frá falli það árið var það engu líkara en að við hefðum orðið meistarar."

„Ég vil hafa fyrir hlutunum. Þannig hefur það alltaf verið hjá mér. Allt mitt líf hef ég þurft að yfirstíga hindranir. Þar að auki er ekkert óeðlilegt við það að berjast fyrir sæti sínu í besta liði heims."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×