Innlent

Loðnusjómenn telja fiskifræðinga meta mun minna magn af loðnu

Væntanlega fæst úr þvi skorið í dag hvort fiskifræðingar og loðnusjómenn meta ólíkt samskonar upplýsingar af fiskileitartækjum. Sjómennirnir telja að fræðingarnir meti mun minna magn en raunveruleikinn er.

Fiskifræðingum um borð í Árna Friðrikssyni tókst í gærkvöldi að mæla vestari loðnugönguna, sem nú er úti af Skógasandi, austan við Vestmannaeyjar. Ekki er þó enn ljóst hvort veiðibanninu verður aflétt.

Til stóð að fjögur loðnuskip, sem taka þátt í leitinni og mælingunni, köstuðu á loðnuna eftir að báðir aðilar væru búnir að meta magnið og síðan yrði stykkjafjöldi í rúmmáli sjávar mældur til að skera úr um þetta hugsanlega misræmi í eitt skipti fyrir öll.

En veður versnaði skyndilega í nótt og bíða skipin þess nú að aftur lægi og eru góðar horfur á því eftir hádegi. Þá á stóri sannleikur að koma í ljós.

Að því búnu mun hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson halda austur með suðurströndinni í von um að hitta á gönguna sem fannst austur af Djúpavogi í fyrradag. En eins og áður sagði er ekki enn ljóst hvort banninu verður aflétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×