Innlent

Sakfelldur fyrir að villa um fyrir lögreglu eftir að hafa skotið hreindýr

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa auðkennt hreindýrstarf, sem hann hafði skotið, með merki Umhverfisstofnunar til þess að villa um fyrir lögreglu og fyrir að hafa verið við veiðar án skotvopnaleyfis. Maðurinn var hins vegar sýknaður af ákæru um að hafa skotið tarfinn í heimldarleysi.

Lögregla greip manninn eftir að hafa fengið tilkynningu um að menn væru að hreindýraveiðum í heimildarleysi á girtu landi í sveitarfélaginu Hornafirði. Maðurinn viðurkenndi að hafa skotið tarfinn en sagðist hafa gert það vegna þess að tarfurinn hafi verið illa særður. Fékk sá framburður stuðning í framburði vitna og dýralæknis.

Komst dómurinn því með hliðsjón af lögum og reglugerðum að ekki væri skylda að tilkynna um særð dýr heldur skylda að aflífa slík dýr strax. Því taldist maðurinn ekki hafa verið á veiðum og ekki brotið gegn lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Maðurinn viðurkenndi hins vegar að hann væri ekki með skotvopnaleyfi og var hann sakfelldur fyrir það. Þá var hann enn fremur sakfelldur fyrir að hafa auðkennt skrokk hreindýrstarfsins í blekkingarskyni með opinberu merki Umhverfisstofnunar.

Maðurinn viðurkenndi að hafa sett merkið á dýrið þegar lögregla nálgaðist hann og taldi dómurinn því hafið yfir skynsamlegan vafa að hann hefði auðkennt hreindýrstarfinn í blekkingarskyni og að fyrir honum hafi vakað að koma í veg fyrir frekari afskipti lögreglu af málinu.

Þótti 30 daga fangelsi, sem skilorðsbundið er til tveggja ára, hæfileg refsing og var hreindýrsskrokkurinn gerður upptækur með dómnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×