Innlent

Ekkert að vanbúnaði að taka ákvörðun um legu Sundabrautar

Samgönguráðherra er ekkert að vanbúnaði að taka strax ákvörðun um lagningu Sundarbrautar að mati borgarfulltrúa og formanns samgöngunefndar. Ráðherra segist sjálfur ætla að bíða með ákvörðunina til sumars eða þangað til umhverfismat liggur fyrir.

Fram kom í máli Kristjáns L. Möller, samgönguráðherra, í fréttum Stöðvar tvö í gær að ekki stæði til að taka ákvörðun um lagningu Sundabrautarinnar fyrr en umhverfismat liggur fyrir. Sú vinna á hins vegar eftir að taka nokkra mánuði að sögn ráðherra og því ljóst að hans mati að ekki verður hægt að taka endanlega ákvörðun fyrr en í fyrsta lagi í sumar.

Valið stendur nú milli tveggja leiða. Annars vegar er það hin svokallaða eyjaleið, sem Vegagerðin styður, og hins vegar sú lausn að leggja brautina í jarðgöng undir Elliðarárvog. Þverpólitísk samstaða er innan borgarstjórnar um að fara gangaleiðina en hún er talin vera um níu milljörðum króna dýrari.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður samgöngunefndar Alþingis og flokksystir Kristjáns, sagði í samtali við fréttastofu í morgun ráðherra ekkert að vanbúnaði að taka ákvörðun strax. Sagði hún það ennfremur mikilvægt til að hægt sé að hefja sem fyrst undirbúningsvinnu fyrir framkvæmdirnar.

Undir þetta tekur Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins. Hann segir að sér finnist ráðherra vera að fela sig á bak við embættismenn í þessu máli. Það séu öll kurl komin til grafar og taka þurfi ákvörðun í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×