Innlent

Fagna jafnræði í lyfjakostnaði

MYND/Getty Images

Ólafur Adolfsson, lyfsali á Akranesi fagnar því að þak verði sett á lyfjakostnað allra sjúklinga líkt og nú gildir með afsláttarkort af læknisþjónustu. Hann segir að núverandi kerfi mismuni sjúklingum og sé „neysluhvetjandi“. Þannig sé í sumum tilfellum ódýrara að fá mikið magn af lyfjum. Þá fái sjúklingar of mikið af lyfinu á meðan verið er að prófa hvort það hentar þeim eða ekki.

Nefnd um greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu áætlar að 1. maí taki nýtt kerfi um lyfjakostnað gildi.

Ólafur sem er apótekari í apóteki Vesturlands segir að kerfið í dag sé gallað; „Það mismunar sjúklingum klárlega eftir sjúkdómum." Hann segir að sumir sjúklingar geti lent í því að greiða fleiri hundruð þúsunda í lyfjkostnað á ári, það fari eftir sjúkdómnum. Á sama tíma fái aðri sjúklingar allan lyfjakostnað niðurgreiddan.

Sigurður Björnsson formaður Krabbameinsfélags Íslands og yfirlæknir á lyflækningum krabbameina á Landsspítala telur eðlilegt að endurskoða kerfið og aðlaga það þannig að allir njóti sömu heilbrigðisþjónustu. „Í prinsippi er eðlilegt að allir sjúklingar njóti sama réttar," segir hann en ítrekar að það fari eftir endanlegri útfærslu kerfisins. Sigurður telur þó mikilvægt að þakið sé ekki of hátt og miðist ekki við almanaksárið, heldur veikindin. „En ég bíð spenntur eftir að sjá hvernig þetta lítur út."

Ólafur telur kostnaðarvitund afar mikilvæga. Allir eigi að bera kostnað, en hann eigi að vera hófstilltur. Þannig umgangist fólk lyf eins og verðmæti. Hætta sé á misnotkun ef lyf eru án kostnaðar fyrir sjúklinginn; „Maður umgengst hluti sem kosta öðruvísi en hluti sem kosta ekki neitt."


Tengdar fréttir

Þak sett á lyfjakostnað allra sjúklinga

Þak verður sett á lyfjakostnað allra sjúklinga á þessu ári og síðar einnig á aðra kostnaðarþætti sjúklinga í heilbrigðisþjónustu. Nefnd um greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðisþjónustu vinnur að því að einfalda það kerfi sem nú er við lýði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×