Lífið

Ný dönsk í kvennafangelsi

Björn Jörundur, Jón Ólafs og Daníel Ágúst fyrir utan Kvennafangelsið í Kópavogi þangað sem þeir fóru með grímur sínar til frekari vinnslu.
Björn Jörundur, Jón Ólafs og Daníel Ágúst fyrir utan Kvennafangelsið í Kópavogi þangað sem þeir fóru með grímur sínar til frekari vinnslu. fréttablaðið/arnþór

„Við leitum fanga víða," segir Björn Jörundur tónlistarmaður. Hljómsveitin Ný dönsk hefur leitað til fanga í Kvennafangelsinu í Kópavogi með að fullgera boðsmiða á útgáfutónleika þeirra sem verða á Nasa á laugardagskvöldið.

Á nýrri plötu hljómsveitarinnar Ný dönsk, Turninum, getur að líta mann sem er ekki til. Um er að ræða samsetta mynd þar sem stuðst er við andlitsdrætti hljómsveitarmeðlima. Í framhaldi af því var ákveðið að aðgöngumiðar á útgáfutónleika hljómsveitarinnar, sem verður á Nasa um næstu helgi, yrðu í formi grímu af þessum manni. „Menn geta farið í Skífuna og náð sér í grímu sér að kostnaðarlausu sem svo gildir sem miði á tónleikana," segir Björn Jörundur. Og nefnir að hann hafi svo sem ekkert á móti því að menn festi sér diskinn í leiðinni en það sé þó mönnum í sjálfsvald sett. En hvað kemur þetta allt kvennafangelsinu í Kópavogi við?

„Konur ilma og allt það. Svo er lag á Turninum sem heitir „Taktu mig fastan" og annað sem heitir „Lykillinn" sem fjallar um að vera læstur úti. Allt tengist þetta á einn eða annan veg," segir Jón Ólafsson sem upplýsir að fangar í Kópavogi gegni því hlutverki að föndra við grímurnar, handfjatla þær, en á grímurnar þarf til að mynda að setja teygjur.

En kvenfangarnir komast væntanlega ekki á Nasa á laugardaginn? Jón segir hljómsveitina nú vera að athuga með það hvort ekki fáist dagsleyfi fyrir þessa nýjustu vini Ný-danskra. Nýleg dæmi sýni að það séu ýmsar glufur í kerfinu. „En... jahh, við gáfum þeim í það minnsta diskinn. Þær geta hlustað á hann.

Svo fá þær náttúrulega borgað fyrir þetta. Kvennafangelsið tekur að sér svona verkefni," segir Jón. Og Björn Jörundur bætir því við að þeir hafi ekki fengið að hitta fangana heldur afhendu grímurnar umboðsmanni fanganna.

„Þetta er nú ekki flókið verk. Fangar taka að sér allt mögulegt. Pakka inn auglýsingadóti og ýmsum litlum verkum," segir Jóhanna Dagbjartsdóttir sem starfar við Kvennafangelsið og tók við grímunum til frekari vinnslu. Hún segist ekki hafa hugmynd um hvort hljómsveitin Ný dönsk sé í dálæti meðal fanga umfram aðra tónlistarmenn. „Halda ekki allir upp á Ný dönsk? Það er örugglega það sama hér og annars staðar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.