Innlent

Einkaneysla dregst ekki saman

Einkaneysla virðist ekki vera að dragast saman þrátt fyrir lækkandi gengi hlutabréfa og horfur á minnkandi vexti í hagkerfinu. Þetta kemur fram í mælingu á smásöluvísitölu sem Rannsóknarsetur verslunarinnar stendur fyrir.

Velta í dagvöruverslun jókst um 10,4 prósent í janúar síðastliðnum miðað við sama mánuð árið áður. Að jafnaði hefur þessi vöxtur í janúar verið 7,7 prósent á milli ára frá 2002. Velta dagvöruverslunar á milli desember í fyrra og janúar í ár minnkaði hins vegar um tæp 27 prósent.

Aukin skóverslun þrátt fyrir hærra verð

Tölur Rannsóknarsetursins leiða enn fremur í ljós að velta í fataverslun jókst um rúm tvö prósent í janúar miðað við sama mánuð í fyrra. Veltan minnkaði hins vegar um nærri 50 prósent í janúar miðað við desember þar á undan. Þá jókst skóverslun um nærri fjórðung á milli ára en minnkaði um þriðjung ef miðað er við desember þar á undan.

Bent er á að verð á fötum hafi lækkað um 3,7 prósent í janúar ár miðað við sama mánuð í fyrra en verð á skóm hækkaði hins vegar um tíu prósent á sama tímabili samkvæmt verðmælingu Hagstofu Íslands. Það felur í sér að velta í fataverslun jókst um 5,9 prósent á föstu verðlagi og 12,4 prósent í skósölu. Í janúar standa útsölur sem hæst á sérvörum enda lækkaði verð í fata og skóverslun um rúm tíu prósent í janúar frá mánuðinum á undan.

Auknar vinsældir þorrablóta skila sér ekki til ÁTVR

Rannsóknarsetrið segir enn fremur að áfengissala hafi aukist um nærri fimm prósent í nýliðnum janúarmánuði frá sama mánuði árið áður. Samdráttur í áfengissölu milli desember og janúar var hins vegar rúm 50 prósent. Þetta er svipaður samdráttur á milli þessara mánaða eins og undanfarin ár. „Fréttir af auknum vinsældum þorrablóta virðast því ekki hafa skilað sér til ÁTVR," segir í tilkynningu Rannsóknarseturs verslunarinnar.

Þessu til viðbótar er bent á að 60 prósenta aukning hafi verið í nýskráningu bíla í janúar miðað við janúar í fyrra og fasteignaverð hefur ekki lækkað þó hægt hafi á fjölda seldra fasteigna. „Í nýrri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir helmingi minni hagvexti á þessu ári miðað við síðasta ár. Þessi samdráttur er því vart byrjaður ennþá," segir enn fremur í tilkynningu Rannsóknarsetursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×