Innlent

Fá dagblöðin fjögurra daga gömul

Reiði ríkir meðal íbúa í sveitum á sunnanverðum Vestfjörðum vegna þeirrar ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar að heimila Íslandspósti að fækka dreifingardögum pósts úr fimm á viku niður í þrjá.

Ákvörðunin tekur til 45 heimila sem þjónað er frá Patreksfirði og Króksfjarðarnesi og eru rökin þau að kostnaður við dreifingu á hvert heimili sé þar langtum meiri en almennt gerist í dreifbýli.

Íbúar segja þetta þýða að dagblöðin berist allt að fjögurra daga gömul. Vegna fjarlægða frá verslunum treysti íbúar mikið á póstkröfusendingar sem nú verði einnig strjálli. Þá komi þetta illa niður á ferðaþjónustu.

Með þessari breytingu verða alls 166 heimili á landinu sem ekki fá fimm daga póstþjónustu. Þar af eru 33 í Grímsey og 15 í Mjóafirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×