Innlent

Hættu við áætlunarflug vegna einkaþotu á kostakjörum

Andri Ólafsson skrifar

Forsætisráðuneytið var búið að bóka áætlunarflug til Búkarest með viðkomu í London í eina nótt áður en ákvörðun var tekin um að fljúga frekar á Nato fundinn með einkaþotu.

Að sögn Grétu Ingþórsdóttur, aðstoðarkonu Geirs Haarde, var ákveðið að taka síðari kostinn þegar í ljós kom að kostnaðurinn væri aðeins 100 til 300 þúsund krónum meiri.

Að sögn Grétu fékk forsætisráðuneytið "mjög góðan díl" hjá fyrirtækinu sem leigði út einkaþotuna. Hún vill þó ekki gefa upp nákvæman kostnað.

Samkvæmt heimildum Vísis naut forsætisráðuneytið ríflegs afsláttar frá fyritækinu Icejet, sem leigir ráðuneytinu vélina. Það réði úrslitum þegar ákvörðunin var tekin. Það skal tekið fram að í útreikningum Vísis í gærkvöld á kostnaði við flugferðina var hins vegar stuðst við þau verð sem Icejet býður venjulegum viðskiptum án alls afsláttar.

Gréta Ingþórsdóttir segir að með ákvörðuninni hafi náðst mikil tímasparnaður. Geir og Ingibjörg hafi náð fundi með Seðlabankanum í gærkvöldi sem ella hefði ekki tekist. Þá hafi Geir einnig náð að mæta í viðtal hjá blaðamanni Financial Times og á þingflokksfund hjá Sjálfstæðisflokknum.

Þess má geta að flugferðin með einkaþotunni gekk vel í dag. Lagt var af stað snemma í morgun og flogið áleiðis til Stavanger í Noregi. Á leiðinni þangað var flugfarþegum boðið upp á ommelettu í morgunmat. Í Stavanger var stoppað í hálftíma á meðan vélin var fyllt af eldsneyti. Svo var haldið til Búkarest en á leiðinni þangað var Geir, Ingibjörgu og föruneyti þeirra boðið upp á kjúkling.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×