Innlent

Hafa 46 daga til þess að breyta eftirlaunalögum

MYND/GVA

Þingmenn hafa 46 starfsdaga til þess að breyta hinum umdeildu eftirlaunalögum ef utanríkisráðherra á að verða að ósk sinni um að ljúka málinu fyrir þinglok.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, lýsti því yfir í fréttum á Stöðvar 2 á sunnudag að hún legði áherslu á allir flokkar kæmu að sátt um breytingar á eftirlaunalögunum og að reynt yrði að breyta þeim fyrir þinglok.

Rúm fjögur ár eru síðan að eftirlaunafrumvarpið varð að lögum en með því eru æðstu embættismönnum tryggð betri lífeyriskjör en almenningi. Valgerður Bjarnadóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, lagði í fyrra fram frumvarp til breytingar á þessum lögum það situr fast í allsherjarnefnd. Fundur var hjá nefndinni í morgun en að sögn Birgis Ármannssonar, formanns allsherjarnefndar, er verið að ræða það eins og ýmis önnur þingmannamál þótt engin niðurstaða sé fengin.

Samkvæmt upplýsingum á vef Alþingis stendur núverandi þing, sem er hið 135. í röðinni, fram í september en ekki einungis fram í maí. 36 starfsdagar eru eftir þar til sumarhlé verður á þingi, þar af 21 þingfundadagur. Þing kemur svo aftur saman í tíu daga í september, þar af fimm þingfundadaga, áður en þinglok verða. Nýtt þing kemur svo saman 1. október.

Þingmenn hafa því 46 daga til að ljúka breytingum á eftirlaunafrumvarpinu ef formanni Samfylkingarinnar á að verða að ósk sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×