Innlent

Eldri borgarar ánægðir með þjónustu Reykjavíkurborgar

Eldri borgari í Reykjavík.
Eldri borgari í Reykjavík. Mynd/ Róbert
Mikill meirihluti eldri borgara, 80 ára og eldri, er ánægður með þá þjónustu sem þeir hljóta hjá Velferðasviði Reykjavíkurborgar. Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem Capacent Gallup gerði fyrir Velferðarsvið Reykjavíkurborgar. Í rannsókninni voru hagir eldri borgara, svo sem húsnæðisaðstæður, heilsufar, þjónusta og félagsleg tengsl rannsökuð og viðhorf þeirra til þjónustu og úrræða.

Þá sýna niðurstöðurnar að heilsufar svarenda er almennt gott, 63% segja heilsufar sitt gott, 74% eru líkamlega vel á sig komnir miðað við aldur og 65% svarenda hreyfa sig vikulega eða oftar.

„Sérstaka athygli vekur að mikill meirihluti telur sig ekki vera félagslega einangraðan og segist njóta góðra og reglulegra samskipta við börn, ættingja og vini. Rúmlega þriðjungur svarenda tekur virkan þátt í félagsstarfi eldri borgara og um fjórðungur viðmælenda kveðst einnig taka þátt í annars konar félagsstarfi," segir í tilkynningu frá Velferðasviði.

Könnunin var gerð á tímabilinu 29. nóvember 2007 til 9. janúar 2008. Í úrtaki voru 1000 Reykjavíkurbúar 80 ára og eldri, valdir af handahófi úr þjóðskrá. Svarhlutfall var 58,8%.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×