Innlent

Ekki ástæða til sérstakrar rannsóknar á fangaflugi

MYND/GVA

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra segir ekki ástæðu til þess að ráðast í sérstaka rannsókn á fangaflugi hér á landi líkt og gert hefur verið í nágrannalöndunum. Ef vísbendingar fáist hins vegar um að íslenskir flugvellir hafi verið notaðir með ólögmætum hætti þá sé ástæða til þess að skoða málið.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, vísaði til þáttar sem Ríkissjónvarpið sýndi á mánudag en þar fjallaði danska sjónvarpið um tengsl CIA og dansks yfirráðasvæðis við fangaflug. Sagði Steingrímur að þátturinn hefði valdið miklu umróti í Danmörku og ríkisstjórnin hefði verið sökuð um að leyna danska þingið og grænlensku þjóðina upplýsingum. Þá kæmi Ísland verulega við sögu í þættinum.

Sagði Steingrímur þáttinn sýna að vel væri hægt að rannsaka fangaflug og spurði hann utanríkisráðherra hvort hún teldi ekki að fara ætti yfir þessi mál hér og landi og skipa óháða rannsóknarnefnd vegna fangaflugsins líkt og meðal annars Svíar og Þjóðverjar hefðu gert.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir benti á að danska sjónvarpið hefði gert tvo þætti um fangaflug. Í síðari þættinum, sem vonandi yrði sýndur líka, hefði komið fram að íslensk stjórnvöld hefðu gert ýmislegt sem Danir hefðu ekki gert, meðal annars skrá yfir lendingar véla sem hugsanlega hefðu verið notuð undir fangaflug. Engar staðfestingar hefðu fengist fyrir því. Aðgerðir íslenskra stjórnvalda hefðu verið nefndar sem fyrirmynd.

Aðaltatriðið væri að koma í veg veg fyrir að svona gerðist ekki og íslensk stjórnvöld hefðu gripið til aðgerða þar að lútandi. Ef menn fengju vísbendingar um að íslenskir flugvellir hafi verið notaðir með ólögmætum hætti þá yrði það mál skoðað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×