Innlent

Grunnskólanemendum fækkar næstu árin

Grunnskólanemendur í íslenskum skólum reyndust um 43.800 síðastliðið haust sem er fjölgun um innan við hundrað nemendur frá fyrra ári.

Fram kemur á vef Hagstofunnar auk þessa hafi 124 börn stundað nám í 5 ára bekk í 5 skólum. Gert er ráð fyrir að nemendum grunnskóla fækki næstu árin því þeir árgangar sem eru að hefja grunnskólanám eru fámennari en þeir árgangar sem ljúka munu grunnskólanámi. Grunnskólanemendur á Íslandi voru flestir haustið 2003, rúmlega 44.800.

Tölur Hagstofunnar leiða einnig í ljós að skólaárið 2007-2008 voru níu einkaskólar starfandi á grunnskólastigi með 664 nemendur. Fjölgaði þeim um tæplega hundrað frá skólaárinu á undan. Ekki hafa áður verið fleiri nemendur í einkareknum grunnskólum á Íslandi frá upphafi gagnasöfnunar Hagstofu Íslands haustið 1997.

Alls starfa 173 grunnskólar á landinu og er það óbreyttur fjöldi frá fyrra ári. Í skólunum voru rúmlega 1700 nemendur með annað móðurmál en íslensku og fjölgar þeim ár frá ári. Flestir eru pólskumælandi, 482 talsins, og búa tæplega 60 prósent þeirra á landsbyggðinni.

Að meðaltali eru 18,4 nemendur í bekk en þá eru sérskólar og sérdeildir ekki taldar með. Bekkjarstærð vex með hækkandi aldri nemenda. Að meðaltali eru fæstir nemendur í 1. bekk, eða 16,5, en flestir nemendur í 9. bekk, eða 19,7.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×