Innlent

IMF lánið endurgreitt á árunum 2012-2015

Mikið af fréttamönnum spurðu oddvita stjórnarflokkanna á fundinum.
Mikið af fréttamönnum spurðu oddvita stjórnarflokkanna á fundinum.

Á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum fyrir stundu svöruðu Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir spurningum fréttamanna. Þar sagði Geir að nú væri formlega búið að óska eftir 2 milljarða dollara aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ferlið tæki hinsvegar um 10 daga og færi allt að óskum kæmu rúmar 800 milljónir bandaríkjadala strax í kjölfarið. Hann sagði að í dag hefði verið haft samband við aðra seðlabanka og hann mun sérstaklega ræða málin við norræna kollega sína á fundi í Helsinki á mánudaginn.

Í máli Geirs kom einnig fram að lánið við IMF verði endurgreitt á árunum 2012-2015 en lánaskilyrði liggja ekki fyrir. Geir sagði að sjóðurinn veitti lán samkvæmt ákveðnum reglum og kvóta hvers lands í sjóðnum og það útskýrði þessa 2 milljarða dollara. Vangaveltur um hærri tölur væru háðar því að aðrir seðlabankar kæmu að.

Í máli ráðherranna kom fram að næstu 6 mánuðir verði mjög erfiðir. Atvinnuleysi mun aukast og mikil óvissa ríkir um verðbólguna. Þetta sé þó liður í því að auka hagvöxt og skapa ný störf fyrir það fólk sem er að missa vinnuna.

Á fundinum kom fram að skilyrðin sem sjóðurinn setur fyrir lánveitingunni sé trúnaðarmál sem ekki megi ræða fyrr en búið er að veita lánið, og vonuðust að það yrði innan 10 daga.

Þau voru einnig spurð hvort einhver ágreiningur hefði verið innan ríkisstjórnarinnar um að leita til sjóðsins. Í svörum þeirra kom fram að stjórnarflokkarnir væru sammála í þessari aðgerð og að henni hefði verið unnið undafarna daga.

Aðspurð hvort þau væru til í að færa fórnir, lækka laun sín og endurskoða lífeyrisréttindi svaraði Geir því til að það sé eitthvað sem verði að sjálfsögðu athugað. Ingibjörg sagði einnig að endurskoða þyrfti svokallað eftirlaunafrumvarp.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×