Innlent

Tvo olíuflutningabíla þyrfti undir daglega áfengisneyslu landsmanna

Áfengisdrykkja jókst um sjö prósent í fyrra og þyrfti tvo stóra olíuflutningabíla til að rýma daglega áfengisneyslu landsmanna. Og sterkir drykkir njóta vinsælda á ný eftir bjór- og léttvínsgutl síðustu ára.

Slíkir olíubílar taka um 40 þúsund lítra en dagneyslan er um 70 þúsund lítrar. Til samanburðar þarf aðeins einn slíkan olíubíl á dag til að anna eldsneytisþörfinni í innanlansfluginu. Og ef enn er leikið að tölum þá dygði ársneyslan til að fylla um það bil 20 stútungsstórar sundlaugar.

Hver landsmaður eldri en 15 ára drakk samtals rúmlega 7 og hálfan lítra af hreinu alkóhóli í fyrra samkvæmt samantekt Hagstofunnar. Það er aukning um 0,3 lítra frá árinu á undan. Alls keyptu landsmenn nærri 25 milljónir lítra af áfengi í fyrrra sem er sjö prósentum meira en árið á undan.

Fram kemur í tölum Hagstofunnar að sala á sterkum drykkjum hafi aukist á ný á allra síðustu misserum en sala þeirra hafði minnkað milli ára flest árin frá árinu 1989 þegar sala á bjór var leyfð. Neysla gosblandaðra drykkja, sem eru að grunni til sterkir drykkir, hefur aukist mikið frá árinu 2000.

Eilítið hefur hægt á hinni miklu aukningu sem var í sölu á léttum vínum í mörg ár en sala á hvítvíni jókst þó mikið milli áranna 2006 og 2007. Hlutfall bjórs í heildarsölu áfengis í alkóhóllítrum talið hefur verið nokkuð stöðugt undanfarin ár eða rétt rúmlega helmingur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×