Innlent

Íslenskir korthafar ekki orðið fyrir barðinu á kortaþjófum

Lögregla rannsakar nú hvort Íslendingur sé í slagtogi með útlendingunum tveimur sem handteknir voru með á fjórðu milljón króna í Leifsstöð. Þeir eru grunaðir um að hafa tekið peningana út úr hraðbönkum með fölsuð kort.

Útlendingarnir tveir, Rúmeni og Þjóðverji, voru gripnir með peningana í farangri sínum á leið sinni úr landi. Nam upphæðin hátt á fjórðu milljón króna. Þeir eru grunaðir um að hafa stundað víðtæk krotasvik í hraðbönkum á höfuðborgarsvæðinu um páskana og notað til þess fölsuð kort. Afrituðu mennirnir kortaupplýsingar erlendis og yfirfærðu á fölsuð kort sem þeir notuðu hér á landi.

Mennirnir voru á leið til Lundúna, en óvíst er hvað mennirnir höfðu hugsað sér að gera með nokkrar milljónir af íslenskum gjaldeyri þar í landi. Er það ekki síst þess vegna sem lögreglu grunar að Íslendingur sé viðriðinn málið því eins og flestir þekkja er ekki hlaupið að því að skipta íslenskum gjaldeyri á erlendum vettvangi.

Rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu rannsakar málið en samvinna lögreglu og tollgæslu á Suðurnesjum leiddi til handtöku mannanna. Lögregla verst allra frétta af málinu og fengust litlar upplýsingar aðrar en þær að málið er í rannsókn.

Fréttastofa hafði samband við kortafyrirtæki hér á landi og samkvæmt upplýsingum frá þeim hafa íslenskir korthafar ekki orðið fyrir barðinu á kortaþjófunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×