Fótbolti

Fyrsti sigurinn í höfn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigurmarki Veigars Páls fagnað í kvöld.
Sigurmarki Veigars Páls fagnað í kvöld.

Ísland vann í kvöld sinn fyrsta sigur í undankeppni HM 2010 með því að leggja Makedóníu að velli, 1-0, á Laugardalsvellinum í kvöld.

Fylgst var með leiknum á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins og má lesa allt um gang leiksins með því að smella á leikinn á Miðstöð Boltavaktarinnar.

Það var Veigar Páll Gunnarsson sem skoraði eina mark leiksins á 16. mínútu leiksins eftir aukaspyrnu Eiðs Smára Guðjohnsen og stoðsendingu Brynjars Björns Gunnarssonar. Báðir síðarnefndu þurftu að fara síðar meiddir af velli.

Fyrri hálfleikur var að mestu eign Íslendinga. Þeir pressuðu vel á Makedóna og spiluðu boltanum vel sín á milli.

Síðari hálfleikur var hins vegar mun erfiðari og fengu gestirnir nokkur afar góð tækifæri til að skora jöfnunarmarkið. Gunnleifur Gunnleifsson átti hins vegar afar góðan leik í íslenska markinu auk þess sem að lukkudísirnar voru á bandi íslenska liðsins í dag.

Sérstaklega reyndist Goran Pandev, leikmaður Lazio á Ítalíu, íslensku varnarmönnunum afar erfiður. Hættulegasta færið fékk hann á 76. mínútu er Hermann Hreiðarsson missti hann inn fyrir varnarlínuna. Pandev lék á Gunnleif í markinu og skaut að marki þar sem Indriði Sigurðsson var mættur og náði að bægja hættunni frá á síðustu stundu.

Alls fengu Makedónar fjögur upplögð færi í síðari hálfleik en Gunnleifur var öryggið uppmálað í markinu og tók allt það sem á hann kom.

Emil Hallfreðsson fékk svo upplagt færi í uppbótartíma til að tryggja sigurinn. En hann var óöruggur á boltann og sóknin rann út í sandinn.

Bestu leikmenn íslenska liðsins í dag voru eins og í síðasta leik - Gunnleifur og Kristján Örn Sigurðsson. Indriði Sigurðsson stóð sig einnig afar vel. Flestir komust ágætlega frá sínu en Veigar Páll átti sérstaklega fína spretti, sér í lagi í fyrri hálfleik. Aron Einar og Theódór Elmar áttu þar að auki mjög fínar innkomur í leikinn. Hins vegar var ljóst að Emil var langt frá sínu besta í kvöld.

Þetta þýðir að Ísland er í þriðja sæti riðilsins með fjögur stig, rétt eins og Skotar sem eru með betra markahlutfall. Holland er í efsta sæti með níu stig, Makedónía í því fjórða með þrjú stig og Norðmenn neðstir með tvö.












Tengdar fréttir

Grétar Rafn: Frábær samstaða

„Það eru erfiðir tímar og þetta bitnar líka á okkur sem og fjölskyldum okkar. Mér fannst því leikmenn sýna frábæra samstöðu inn á vellinum í kvöld,“ sagði Grétar Rafn Steinsson eftir 1-0 sigur Íslands á Makedóníu í kvöld.

Hollendingar að stinga af

Holland vann í dag 1-0 sigur á Norðmönnum í Osló í riðli Íslands í undankeppni HM 2010 í fótbolta.

Þjálfari Makedóníu: Vorum miklu betri

„Ég óska Íslendingum til hamingju með sigurinn en mér fannst okkar lið vera miklu betra í þessum leik,“ sagði Srecko Katanec, landsliðsþjálfari Makedóníu eftir leikinn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×