Fótbolti

Þjálfari Makedóníu: Vorum miklu betri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Srecko Katanec, landsliðsþjálfari Makedóníu.
Srecko Katanec, landsliðsþjálfari Makedóníu. Nordic Photos / AFP
„Ég óska Íslendingum til hamingju með sigurinn en mér fannst okkar lið vera miklu betra í þessum leik," sagði Srecko Katanec, landsliðsþjálfari Makedóníu eftir leikinn í kvöld.

Ísland vann 1-0 sigur á Makedóníu með marki Veigars Páls Gunnarssonar í fyrri hálfleik.

„Við bara nýttum ekki þau færi sem við fengum. Þau voru örugglega tíu talsins. En svona er fótboltinn bara og veit ég ekki ástæðurnar fyrir því," bætti hann við.

Hann segir þó að tapið gegn Hollandi á heimavelli í síðasta mánuði hafi verið verra en tapið á Laugardalsvelli í kvöld.

„Þar var dæmt af okkur löglegt mark þegar staðan var 1-1," sagði Katanec en leiknum lauk með 2-1 sigri Hollendinga. „Það var mjög erfitt að þurfa að taka því."

„Við erum með þrjú stig eftir þrjá leiki. Við áttum skilið að fá þrjú stig í dag og áttum að fá meira úr Hollandsleiknum. En svona er þetta bara."

Hann sagði að íslenska liðið hafi alls ekki komið sér á óvart. „Þeir skoruðu mark sem verður að skrifast á okkur. Fyrir utan það þurfti markvörðurinn okkar að vera á varðbergi í einu til tveimur færum til viðbótar."

Katanec vildi ekkert tjá sig um möguleika Makedóníu um að ná öðru sæti riðilsins.

„Áður en riðillinn hófst voru Holland, Skotland og Noregur líklegust til afreka. Við verðum bara að taka einn leik fyrir í einu. Næsti leikur er gegn Hollandi ytra og ég vona bara að við spilum jafn vel þá og við gerðum í kvöld."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×